Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjörður hefur frá upphafi byggðar Íslands verið talin ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi og er er ein helsta þjónustuhöfn landsins.

Hafnsaga: Hafnsöguskylda er í Hafnarfirði. Þetta þýðir að öll skip sem koma til Hafnarfjarðarhafnar, bæði til Hafnarfjarðar og Straumsvíkur, þurfa að fá hafnsögumann um borð til þess að leiðbeina skipstjórnendum inn og út úr höfninni.  Skipstjórar geta fengið undanþágu frá hafnsöguskyldu ef þeir koma reglulega til hafnarinnar og þeir orðnir vel kunnugir aðstæðum. Hafnsögumenn eru á vakt eða bakvakt allan sólarhringinn allt árið um kring og ávalt reiðubúnir til þjónustu.
 

Hafnar- og dráttarbátar: Í Hafnarfirði eru tveir hafnarbátar. HB Hamar hefur 15 tonna togkraft og HB Þróttur hefur 4 tonna togkraft. Báðir bátarnir ferja hafnsögumenn í og úr skipum, sem eru á leið til eða frá höfninni. Ennfremur veita þeir umbeðna aðstoð við skip, svo sem draga eða ýta skipum eftir þörfum. Einnig flytja þeir fólk, varahluti og annan farangur út í skip á ytri legu eða frá þeim í land. Bátarnir eru til reiðu allan sólarhringinn allt árið um kring og ávalt reiðubúnir til þjónustu.
 

Festarþjónusta: Hafnarverðir taka á móti landfestum og binda skipin við hafnarbakkana. Við brottför skipa leysa þeir landfestar. Hafnsögumaður leiðbeinir skipum að hafnarbökkum og skipuleggur festarþjónustuna.
 

Afgreiðsla vatns og rafmagns: Hafnarverðir afgreiða vatn um borð í skip og báta eftir pöntun. Hafnarverðir tengja skip við rafmagn eftir óskum skipstjórnenda. Vatn og rafmagn er pantað hjá hafnsögumanni.
 

Vigtarþjónusta: 21 metra bílavog er til vigtunar farartækja og gáma. Einnig hefur höfnin 3 pallvogir til úrtaksvigtunar afla. Hafnarverðir sinna vigtuninni eftir óskum viðskiptavini, úrtaksvigtun á meðan landað er og á bílavog eftir því sem óskað er. Hægt er að kalla eftir vigtun sjávarafla á bílavog utan dagvinnutíma hjá hafnarverði sem er á vakt eða hjá hafnsögumanni.
 

Úrgangsolía: Skip og bátar geta losað sig við úrgangsolíu hjá höfninni. Þjónustufyrirtæki sjá um losun úrgangsolíu stærri skipa og báta og fást upplýsingar um þau hjá umboðsmönnum skipa eða hafnsögumanni á vakt. Minni bátar losa úrgangsolíu ásamt fylgihlutum í sérstaka móttökustöð hafnarinnar við Flensborgarhöfn.
 

Sorp: Þjónustufyrirtæki koma með sorpgáma að hlið stærri skipa og báta og fjarlægja þá að notkun lokinni. Hafnsögumenn aðstoða skipsstjórnendur við að panta sorpgáma og skal óska eftir því hjá hafnsögumanni. Sorpgámur er við Flensborgarhöfn fyrir sorp frá minni bátum.